Límtrésbitar úr

íslensku timbri

Nytjaskógrækt á sér ekki langa sögu á Íslandi en nú bendir margt til að á næstu áratugum verði hér hægt að byggja upp blómlegan timburiðnað með sjálfbærri skógrækt og sterkum innviðum. Til þess þarf að innleiða skilvirkni í skógrækt sem og alla úrvinnslu, en það er flókið ferli og kostnaðarsamt.
Leggja þarf áherslu á gæðavottanir, svo sem CE-merkingu, en hún gefur til kynna að varan uppfylli lágmarkskröfur um öryggi og heilsuvernd sem settar eru fram í Evróputilskipunum. Einnig þarf að samræma og aðlaga íslenska staðla að úrvinnslunni.

Rannsóknarverkefni til að kanna nýtileika á íslensku timbri í timburframleiðslu (2019)

 

Tilgangur þessa rannsóknaverkefnis er kanna nýtileika á íslensku timbri í límtrésbitaframleiðslu með það að markmiði að draga úr innflutningi á timbri og minnka þar með kolefnisspor byggingarvörunnar, sem og stuðla að því að Ísland verði sjálfbærara um byggingarefni.

Er hægt að gera límtré úr íslensku timbri?

Textinn hér fyrir neðan er sá sem fylgdi myndbandinu sem sýnt var í Landanum á RÚV 5.3.2019 

Þessar vikurnar er í gangi spennandi rannsókn þar sem aðalþátttakendurnir eru Skógræktin í Þjórsárdal, Límtré/Vírnet á Flúðum og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Rannsóknin gengur út á að komast að því hvort hægt sé að nota íslenskt timbur í límtré en hingað til hefur verið notað innflutt hráefni.
Límtré er eins og nafnið gefur til kynna timbur sem er límt saman og til dæmis notað sem burðarbitar. „Þetta er mjög svo spennandi. Það er frábært að nú hafi verið lagt af stað í þessa vegferð. Loksins segja margir, að vinna alvöru timbur úr trjánum. Þetta sé ekki bara fellt niður, kurlað og brennt. Að við séum núna farin að hugsa verulega til framtíðar,“ segir Trausti Jóhannsson skógarvörður sem er mjög bjartsýnn á að þetta gangi vel. 

„Rauði þráðurinn í þessu verkefni er umhverfismál,“ segir Logi Unnarson Jónsson ráðgjafi hjá Límtré/Vírneti. „Við gerum okkur alveg grein fyrir mikilvægi þessa verkefnis. Núna á t.d. að fara að stórauka skógrækt í landinu. Það gefur augaleið að það er mikill hagur í því að geta notað íslenskt timbur. Að sleppa við þungaflutninga frá Evrópu og bara byggja upp hér blómlega timburiðnað.“

Gerðar verða styrktarprófanir á íslenska límtrénu hjá Nýsköpunarmiðstöð og búist er við fyrstu niðurstöðum með vorinu. 

Stór áfangi í íslenskri skógræktarsögu

Í Landanum á RÚV sunnudaginn 13.10.2019 var sýndur þáttur um timburvinnslu. Þetta var framhald þáttarins sem sýndur var í Landanum þann 05.03.2019 þar sem aðallega var fjallað um skógarhöggið Þjórsárdalnum og límtrésverksmiðjuna á Flúðum og það sem þar fer fram.
Í þessu myndbandi var verið að brjóta fyrstu límtrésbitana sem framleiddir eru úr íslenskum viði; furu, lerki og ösp og þeir bornir saman við erlenda grenið sem límtrésbitarnir eru venjulega búnir til úr og var sá hluti af myndbandinu tekinn á Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Var þetta í fyrsta sinn sem ösp var prófuð sem burðarviður.
Það kom grein í Bændablaðinu 12.09.2019 um að alaskaöspin hafi komið best út úr prófunum og má lesa þá grein hér ofar á síðunni.

Límtré verður til úr íslensku timbri - Ferlið

Íslenskt límtré - Framleiðsla 2020 - Myndir frá Einari Bjarnasyni

Á þessari síðu Einars Bjarnasonar má skoða myndir um  framleiðslu á límtré fyrir göngubrú yfir Þjórsá.

Scroll to Top