Um okkur

Eiríkur Þorsteinsson

er húsgagnasmíðameistari og trétæknir að mennt með víðtæka starfsreynslu á sviði ráðgjafar, kennslu tengdri trétækni og stjórnun.
Hann var í námi  hjá Erik Borsholt cand. silv. við Dansk Teknologisk Institut að læra rekstur og eftirlit með gagnvörn. Hann setti upp fyrsta gagnvarnartankinn á Íslandi hjá fyrirtækinu Völundi árið 1971 og sá um rekstur hans sem framleiðslustjóri þar í fjögur ár.

Hann var deildarstjóri Trétæknideildar Iðntæknistofnunar Íslands og síðar Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins þar til deildin var lögð niður. Hann var þá í samvinnu við aðra um eftirlit með gagnvarnartækjum sem þá voru starfandi á Íslandi. Einnig sá hann um eftirlit á fyrirtækjum í Lettlandi og Eistlandi sem voru að selja gagnvarið efni til Íslands.

Var um árabil fulltrúi Íslands um timburmálefni í norrænu samstarfi hjá Iðnþróunarsjóði Norðurlanda, Nordisk industrifond, sem nefnt var Nordic Wood og einnig starfaði sem framkvæmdastjóri norræns límtréseftirlits í nokkur ár.

Hefur sérhæft sig í flokkun á timbri í samvinnu við fyrrum Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, nú Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem sér um að votta fyrirtæki í flokkun á timbri og haldið námskeið þar um bæði á Íslandi sem og erlendis t.d. í Lettlandi á vegum BYKO hf., í Eistlandi á vegum Húsasmiðjunnar hf. og í Litháen fyrir Quercus.

Hefur unnið sem verkefnisstjóri í verkefninu Vinnsla og grisjun í samvinnu BYKO hf og Skógræktar ríkisins með umsjón Námsgagnastofnunar og styrk frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.

Einnig hefur hann verið aðalhöfundur ritsins Rétt notkun á timbri sem Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, BYKO hf og Húsasmiðjan hf gáfu út í sameiningu 1991 og aftur 2002 ásamt því að hafa ritað fjölmörg svokölluð Rb-blöð um timbur sem Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins gaf út.

Hann vann að útgáfu Norræns timburorðasafns, sá um íslenska hlutann og er sá nú  í  Íðorðasafni hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 

Eiríkur stofnaði Trétækniráðgjöfina árið 1998 og hefur hún verið hans atvinna eftir að hann komst á eftirlaunaaldur árið 2019 og hætti hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands en þar var hann gæðastjóri og umsjónarmaður með fasteignum.

Stærsta verkefni Eiríks í TreProX samstarfsverkefninu var að þýða handbókina Handelssortering av trävaror úr sænsku og heitir hún Gæðafjalir – Viðskiptaflokkun á timbri úr barrtrjám og kom út í nóvember 2020 á vegum Landbúnaðarháskólans í Erasmus+ verkefninu TreProX. 

Nýjasta stóra verkefni Eiríks er gerð námsgagna og kennslumyndbands í samstarfi við Iðuna fræðslusetur um flokkun á timbri út frá bókinni Gæðafjalir og staðlinum ÍST-INSTA 142. Reiknað er með að kennslan hefjist fljótlega á árinu 2024.

 

Eiríkur Þorsteinsson

Hulda Halldórsdóttir

Við hjónin höfum rekið Trétækniráðgjöf slf. frá stofnun 2012 og reyndar frá því að Eiríkur hóf þessa ráðgjafarstarfsemi undir sínu eigin nafni í byrjun 1998. Við höfum bara verið tvö í þessu en notið góðrar aðstoðar fjölskyldunnar og vina þegar þarf. Vinna fyrir Trétækniráðgjöfina hefur alltaf verið í hjáverkum og því ekki verið unnið við vefsíðuna nema þegar tími gafst.

Ég sé um heimasíðuna og safna þar inn ýmsum fróðleik um timbur og timburvinnslu og öðru efni sem við teljum áhugavert fyrir okkar markhóp og aðra sem síðuna skoða. Við ákváðum að síðan yrði safnsíða þar sem fróðleikur safnaðist upp en ekki vera að eltast endilega við nýjungar en reyna þó að koma þeim til skila eftir hentugleika.

Ég hef líka séð um ýmsa aðra þætti svo sem yfirlestur og aðstoðað við þýðingar sem Eiríkur hefur verið að vinna við að þýða fyrir íslenskan markað.

Við eigum góða aðila að  á hinum ýmsu sviðum, bæði varðandi allt sem viðkemur timbri og timburvinnslu, skógrækt, skipulagi, menntun, fjölmiðlun og lögfræði og nýtum okkur það eftir megni.

 

Hulda Halldórsdóttir