Um okkur
Eiríkur Þorsteinsson
er húsgagnasmíðameistari og trétæknir að mennt með víðtæka starfsreynslu á sviði ráðgjafar, kennslu tengdri trétækni og stjórnun.
Hann var deildarstjóri Trétæknideildar Iðntæknistofnunar Íslands og síðar Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins þar til deildin var lögð niður.
Var um árabil fulltrúi Íslands um timburmálefni í norrænu samstarfi hjá Iðnþróunarsjóði Norðurlanda, Nordisk industrifond, sem nefnt var Nordic Wood og einnig starfaði sem framkvæmdastjóri norræns límtréseftirlits í nokkur ár.
Hefur sérhæft sig í flokkun á timbri í samvinnu við fyrrum Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, nú Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem sér um að votta fyrirtæki í flokkun á timbri og haldið námskeið þar um bæði á Íslandi sem og erlendis t.d. í Lettlandi á vegum BYKO hf., í Eistlandi á vegum Húsasmiðjunnar hf. og í Litháen fyrir Quercus.
Hefur unnið sem verkefnisstjóri í verkefninu Vinnsla og grisjun í samvinnu BYKO hf og Skógræktar ríkisins með umsjón Námsgagnastofnunar og styrk frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.
Einnig hefur hann verið aðalhöfundur ritsins Rétt notkun á timbri sem Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, BYKO hf og Húsasmiðjan hf gáfu út í sameiningu 1991 og aftur 2002 ásamt því að hafa ritað fjölmörg svokölluð Rb-blöð um timbur sem Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins gaf út.
Hann vann að útgáfu Norræns timburorðasafns, sá um íslenska hlutann og er sá nú í Íðorðasafni hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Nýjasta verkefni Eiríks var að þýða handbókina Handelssortering av trävaror úr sænsku og heitir hún Gæðafjalir – Viðskiptaflokkun á timbri úr barrtrjám og kom út í nóvember 2020 á vegum Landbúnaðarháskólans í Erasmus+ verkefninu TreProX.
