bókin gæðafjalir
Gæðafjalir - Viðskiptaflokkun á timbri úr barrtrjám
Á Norðurlöndum er nú notað nýtt flokkunarkerfi, kallað viðskiptaflokkun á timbri (handelssortering av trävaror), sem tryggir að sögunarmyllur framleiði timburafurðir sem uppfylla kröfur og eftirspurn neytandans. Þessi nýja flokkunartækni varð til vegna sérkrafna frá kaupendum og nálægðarinnar við notendur og mótaði kröfur um skýrar reglur. Til að tryggja örugg samskipti á milli seljanda og kaupanda er nauðsynlegt að tilvísanir í flokkuninni skiljist eins hjá báðum aðilum.
Svenskt Trä og Svenskt Trätekniskt Forum ásamt Finlands Sågindustrimannaförening í Finnlandi og Treindustriens Tekniske Forening í Noregi sameinuðust um reglur fyrir þessa flokkun á söguðu timbri. Reglurnar eru byggðar á eldri flokkunarreglum úr grænu bókinni og bláu bókinni og reynslu af prufuflokkun.
Nýju reglurnar, viðskiptaflokkun á timbri, urðu til vegna breytinga á tölugildum sem voru í fyrri reglum, nákvæmari rannsókna og breyttra forsenda á markaði og við framleiðslu. Einnig var röð af samanburðarprófunum sem voru gerðar á milli ólíkra flokkunarreglna grunnurinn að þessum nýju reglum.
Svíþjóð, Noregur og Finnland flokka eftir þessum flokkunarreglum tvær viðartegundir: skógarfuru (Pinus sylvestris) og rauðgreni (Picea abies).
Ísland flokkar eftir þessum flokkunarreglum eftirtaldar viðartegundir: skógarfuru (Pinus sylvestris), stafafuru (Pinus contorta), rauðgreni (Picea abies), sitkagreni (Picea sitchensis), evrópulerki (Larix decidua), síberíulerki (Larix sibirica) og rússalerki (Larix sukaczewii).
Skógurinn er náttúruauðlind sem endurnýjar sig sjálf. Á Norðurlöndum skiptir þetta miklu máli og samfelld endurnýjun er alltaf að batna. Fura og greni eru ca. 80 % af heildarmagni skóga á Norðurlöndum.
Ólíkar trjátegundir hafa aðlagað sig að vaxtarskilyrðum eftir því hvernig jarðvegurinn er. Gæði furu verða mest í þurrum og hrjóstrugum jarðvegi. Grenið nærist hins vegar best í næringarríkum jarðvegi. Jarðvegurinn og landfræðileg lega, hefur mest áhrif á eiginleika timbursins og þannig líka á þær vörur sem eru framleiddar úr því. Bolir úr greni og furu hafa ólík en dæmigerð kvistasvæði. Furan hefur við þroskaðan aldur næstum kvistlausan rótarstofn, en miðstofninn er með þurra kvisti og toppurinn með lifandi kvisti. Grenið er oftast með dauða kvisti í rótarstofni og miðstofni, en restin af stofninum er með lifandi kvisti.
Eiríkur Þorsteinsson hjá Trétækniráðgjöf slf. sá um þýðinguna á bókinni úr sænsku og fékk hún íslenska heitið Gæðafjalir – Viðskiptaflokkun á timbri úr barrtrjám en sænska heitið er Handelssortering av trävaror.
Aðdragandi að útgáfu bókarainnar var að Landbúnaðarháskóli Íslands, Skógræktin, Landssamtök skógareigenda, og Skógræktarfélag Reykjavíkur fyrir hönd Skógræktarfélags Íslands gerðu með sér samkomulag í júní 2018 um samstarf í gæðamálum viðarnytja. Markmiðið með þessu samstarfi er að unnið verði í samræmi við staðla fyrir þær trjátegundir sem nýtast í timburafurðir.
Með tilkomu evrópska samstarfsverkefnisins ”Innovations in Training and Exchange of Standards of Wood Processing” sem var styrkt af Erasmus+ í gegnum Rannís árið 2019 og fékk verkefnisheitið TreProX var ákveðið að fara í samstarf við hin Norðurlöndin og gefa út bókina Handelssortering av trävaror í íslenskri þýðingu undir heitinu Gæðafjalir – Viðskiptaflokkun á timbri úr barrtrjám.
“Ég trúi að útgáfa þessarar bókar boði upphaf að öðru og meira.” sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðar- og nýsköpunarráðherra er hún tók á móti fyrsta eintaki bókarinnar að Mógilsá föstudaginn 13. nóvember 2020 af tveggja metra viðarfjöl úr greni sem Björn Bjarndal Jónsson fyrrum verkefnisstjóri TreProX rétti henni þannig að tveggja metra COVID-19 reglan var í heiðri höfð.
Viðstaddir auk Þórdísar Kolbrúnar og Björns voru Hallgrímur Jónasson forstöðumaður Rannís sem einnig tók á móti eintaki bókarinnar af viðarfjöl eins og ráðherra, Eiríkur Þorsteinsson þýðandi bókarinnar og Guðríður Helgadóttir núverandi verkefnisstjóri TreProX ásamt fréttamanni og nokkrum fleirum en gætt var að öllum sóttvarnarreglum þannig að fjöldinn færi ekki yfir tíu manns.
Lesa má umfjöllun Sigurðar Boga í Morgunblaðinu mánudaginn 16. nóvember 2020 hér í heild sinni. Önnur grein (af mbl.is) er til með stærri mynd af Birni, Guðríði og “gæðafjölinni” sem Eiríkur heldur á.
Einnig má nálgast nánari umfjöllun um afhendingu bókarinnar inni á síðum Landbúnaðarháskólans og Skógræktarinnar þar sem fleiri myndir eru.
Bókina má nálgast hér fyrir neðan á íslensku og sænsku á pdf formi og má einnig nálgast íslensku bókina á pdf formi á heimasíðu verkefnisins TreProX.
Prentútgáfa handbókarinnar fæst hjá Landbúnaðarháskólanum.
Here is a link to a page on The Iceland Forest Service’s website in English about the book and where our Minister of Tourism, Industry and Innovation accepted the first copy of the Icelandic translation.
The Agricultural University of Iceland (Landbúnaðarháskóli Íslands) and The Iceland Forest Service (Skógræktin).
Þetta er forsíða nýju sænsku bókarinnar Handelssortering
av Trävaror.
Þýðing hennar er aðal verkefni Trétækniráðgjafar slf. í Erasmus+ verkefninu TreProX ásamt því að vinna að gerð staðla fyrir ösp.
Sænska bókin er til bæði sem pdf skjal og á prenti sem handbók.
Gæðafjalir
Viðskiptaflokkun á timbri úr barrtrjám er heitið á bókinni á íslensku og er hún til sölu sem handbók hjá Landbúnaðarháskólanum.
Bókin er ókeypis hér sem pdf skjal.