timburmenn-Burðarvirki

Þann 20. ágúst 2025 var haldinn fundur í Végarði í Fljótsdal þar sem mættir voru timburframleiðendur á Austurlandi sem saga timbur úr íslenskum skógum, skógarbændur, bæjarstjórar og byggingarfulltrúar á Austurlandi ásamt þeim Hlyni Gauta Sigurðssyni og Eiríki Þorsteinssyni sem eru verkefnastjórar í HMS-Asks verkefninu „CE-merkingar fyrir viðarvinnslur“ 

Markmið fundarins var að gera grein fyrir stöðu verkefnisins CE-merkingar fyrir viðarvinnslur og leggja drög að stofnun samtaka um vinnslu á burðarvirki úr íslensku timbri

Ekki er búið að ákveða heiti samtakanna en tvö nöfn hafa komið fram; Timburmenn og Burðarvirki.

Endilega sendið inn tillögur að heiti á samtökin með því að senda tölvupóst á timbur@timbur.is.

Þann 9. október 2025 var haldinn fundur að Reykjum í Hveragerði í þar sem mættir voru timburframleiðendur á Suðurlandi sem saga timbur úr íslenskum skógum, skógarbændur, bæjarstjórar og byggingarfulltrúar á Suðurlandi ásamt þeim Hlyni Gauta Sigurðssyni og Eiríki Þorsteinssyni sem eru verkefnastjórar í HMS-Asks verkefninu „CE-merkingar fyrir viðarvinnslur

Markmið fundarins var það sama og fyrri fundar sem var í Fljótsdal í ágúst, að gera grein fyrir stöðu verkefnisins CE-merkingar fyrir viðarvinnslur og leggja drög að stofnun samtaka um vinnslu á burðarvirki úr íslensku timbri.

 

Hér er texti bréfs sem Hlynur Gauti sendi út þann 9. október 2025 til hagaðila hins áætlaða félags. 

“Ágæta timburvinnslufólk, skógræktarfólk og tæknimenn sveitarfélaga.

Hér neðar er tengill á upptöku af fundinum sem var á Reykjum í gær. Þar segir Eiríkur frá hugmyndum og aðdragandanum á 25 mínútum. 

Tveir fundir hafa nú verið haldnir, á Austurlandi 20. ágúst og á Suðurlandi í gær 9. okt. Við eigum enn eftir að funda með Norðlendingum og Vestlendingum en sá fundur verður boðaður innan tíðar.

Ástæðan fyrir fundunum er að kynna og kanna áhuga á stofnun félags sem heldur utan um sögun timburs á Íslandi.”

Tilgangur þessa félags er fyrst og fremst að vera vettvangur fyrir fólk í viðarvinnslu sem stunda fagleg vinnubrögð við gæðaflokkun og sögun íslensks timburs.

 Ástæðan fyrir því að þið ættuð að finnið þörf á því að starfa með félaginu eru:

  1. Íslenskt timbur fyrir íslenskan markað -> Lögð verður áhersla á að geta framleitt timbur sem verður notað fyrir íslenskar byggingar úr íslenskum skógum.
  1. Námskeið -> Með samvinnu við Iðuna fræðslusetur verður séð til þess að viðhalda þekkingu á timbri og vinnslu.
  1. Markaðssetning -> Fyrirtækin/félögin geta að eigin ósk markaðssett viðarvörur sínar í gegnum starfsemi okkar og rásir. Þarna næst heildarsýn yfir þá vöru sem er á markaðinum.
  1. Þekking á rekstri, timbri og vélum -> Ertu að hugsa um að kaupa sög eða stofna trésmíðafyrirtæki?  – Við getum veitt ráðgjöf.
  1. Viðskiptaþróun -> Viltu auka arðsemi, stækka viðskiptavinahópinn þinn eða skera niður álagstoppana? – Við vitum hvernig.
  1. Námsheimsóknir -> Námsheimsóknir okkar gefa hugmyndir og skipst er á reynslusögum.
  1. Norrænt samstarf

Þeir sem geta orðið félagar eru:

Fyrirtæki/félagasamtök sem starfa við sögun á timbri og hafa viðunandi þekkingu á viðfangsefninu.  Einnig geta skógræktarfélög, skógarbændur, arkitektar, skógræktar- og viðarvinnsluáhugafólk, tæknimenn sveitarfélaga og aðrir hagaðilar verið félagar. Vægi félagsaðildar verður ákveðið á aðalfundi þegar þar að kemur.

Seinna í þessum mánuði munum við vera með tölvufund/staðarfund þar sem við munum svara spurningum og í framhaldi munum við senda út umsóknarblöð um þátttöku í félaginu. Nánar auglýst síðar.

Látið endilega boðið berast. Endilega deilið þessum pósti til fólks sem þið teljið að gæti átt erindi eða haft gagn af. Við viljum helst engan skilja útundan.

Vonandi tekst okkur að halda stofnfund félagsins fyrir áramót.

Bestu kveðjur,

Eiríkur Þorsteinsson og
Hlynur Gauti Sigurðsson.

Scroll to Top